Kristín valin í landsliðið í fyrsta sinn

Kristín Lárusdóttir á Syðri-Fljótum í Meðallandi var valin í landslið íslenskra hestamanna fyrir heimsmeistaramót íslenska hestsins sem haldið verður í Danmörku í byrjun ágúst.

Kristín var tekin inn í hópinn eftir að Sigurður Sigurðarson dró sig í hlé en hann verður þó til taks sem varaknapi.

Páll Bragi Hólmarsson í Austurkoti í Sandvíkurhreppi er liðsstjóri liðsins og aðstoðarkona hans er eiginkonan, Hugrún Jóhannsdóttir.

Kristín fer á mótið með Þokka frá Efstu-Grund og mun keppa í bæði fjórgangi og tölti. Kristín og Þokki náðu góðum árangri á Íslandsmótinu í hestaíþróttum á dögunum, en þau deildu efsta sætinu í tölti og urðu fimmtu í fjórgangi, og sigruðu svo í samanlögðu.

„Mér líst auðvitað vel á þetta, svona á gamals aldri,“ sagði Kristín glettin í samtali við Sunnlenska, en hún er vart svo gömul, fædd árið 1971. „Þetta kallar á töluverða vinnu fram yfir mót og því gefst lítill tími í hefðbundin bústörf að Syðri-Fljótum fyrr en að móti loknu.“

Sunnlendingar eiga fleiri fulltrúa í landsliðinu, meðal annars í ungmennaflokki þar sem Guðmunda Ellen Sigurðardóttir og Týr frá Skálatjörn munu keppa í slaktaumatölti og fjórgangi, Gústaf Ásgeir Hinriksson og Geisli frá Svanavatni í fimmgangsgreinum og Róbert Bergmann og Smiður frá Hólum í tölti og fjórgangi.

Fyrri greinHraunar Karl til liðs við Þór
Næsta greinTættu land sveitarfélagsins fyrir minigolfvöll