Krefjandi aðstæður, hiti í fólki og árangurinn stórkostlegur

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Guðni Páll Pálsson hlaupstjóri Mýrdalshlaupsins. Ljósmynd/Páll Jökull Pétursson

Mýrdalshlaupið fór fram í ellefta skipti í Vík í Mýrdal í gær. Keppt var í 10 km og 21 km hlaupi en auk þess fór fram 3 km skemmtiskokk sem var vel sótt.

Talsverð súld og þoka var yfir rásmarkinu í fjörunni í Vík þegar tæplega 400 keppendur lögðu af stað kl. 11:00. Hlauphaldarar höfðu tekið ákvörðun um að breyta hlaupaleið lengra hlaupsins og sneiða framhjá efsta tindi Höttu til að tryggja öryggi þátttakenda í þokunni. Þegar líða tók á hlaupið hætti úrkoman og þokunni létti svo keppendur í 21 km hlaupinu fengu útsýni úr Höttuhlíðum á leið niður í Vík.

Nils Fischer sigurvegari karla í 21 km hlaupinu uppi á Reynisfjalli. Ljósmynd/Páll Jökull Pétursson

Tveir undir brautarmeti
Þrátt fyrir nokkuð krefjandi aðstæður var hiti í fólki og árangur keppenda í ár hreint stórkostlegur, en ekki bara einn heldur tveir keppendur hlupu undir brautarmeti í dag.

Meðal keppenda voru þau Mari Järsk og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, en þau komu saman í mark í 10 km hlaupinu á glæsilegum tíma 1:16 klst, eftir að hafa hlaupið fjöruna og um Reynisfjall. Hlutskörpust í 10 km hlaupinu voru þau Sonja Sif Jóhannsdóttir á tímanum 53:14 mín og Sigurjón Ernir Sturluson á tímanum 41:23 mín. Þess ber að geta að Sigurjón setti nýtt brautarmet, en þeir Þórólfur Ingi Þórisson, sem var í öðru sæti á tímanum 42:13 mín, hlupu báðir undir gamla brautarmetinu.

Keppendur í 21 km hlaupinu hlupu norður Reynisfjall og yfir á Höttu austan við Vík, og þar voru hlutskörpust Nils Fischer 1:38,55 klst og Andrea Kolbeinsdóttir á tímanum 1:48,57 klst.

Andrea Kolbeinsdóttir sigurvegari kvenna í 21 km hlaupinu uppi á Reynisfjalli. Ljósmynd/Páll Jökull Pétursson

Eitt af uppáhalds hlaupunum mínum á Íslandi
Andrea er ein skærasta vonarstjarna utanvegahlaupa á Íslandi um þessar mundir og hún hafði þetta að segja að hlaupi loknu: „Þetta var bara geggjað, þó að veðrið hafi ekki verið það besta fannst mér það bara gera þetta skemmtilegra. Þetta er eitt af uppáhalds hlaupunum mínum hérna á Íslandi. Ég var búin að lofa þjálfaranum mínum hjá Fjallahlaupaþjálfun, þar sem það er bara vika í Evrópumeistaramótið í utanvegahlaupum, að fara bara á 90% krafti. Hann var ekkert mjög spenntur fyrir því að ég væri að fara í keppnishlaup svona stuttu fyrir stórmót, svo ég lofaði honum að fara bara á 90%, en ég gat bara ekki sleppt þessu. Ég hélt mig við 90% og mér leið bara rosalega vel allan tíman. Þetta er bara svo geggjað hlaup, ótrúlega vel skipulagt og ekki hægt að setja út á neitt, þetta er bara frábært,“ sagði Andrea glöð í bragði eftir hlaupið.

Breyttist úr því að vera þétt yfir í frekar þétt
Sigurjón Ernir Sturluson setti nýtt brautarmet í 10 km brautinni og eftir hlaup sagði hann: „Þetta var ótrúlega flott í gegn! Þetta var hugsað sem nokkuð hröð æfing fyrir EM sem er næstu helgi, en svo var Þórólfur Ingi Þórisson mættur á startlínuna svo þetta breyttist úr því að vera þétt yfir í frekar þétt. Við pressuðum vel upp fyrstu brekkuna og maður fann alveg fyrir því að þetta tók vel í og við sigldum saman fyrstu 6 km. Þá fann ég að ég gat ýtt mér lengra og náði forskoti og var sterkari í síðustu hækkuninni áður en við tókum niðurhlaupið. Aðaltilgangurinn var að pressa upp og hamra vel niður og undirbúa fæturna fyrir EM. Þetta gekk vel og ég náði að rúlla mjög hratt og vel niður brekkuna. Og brautarmetið er skemmtileg viðbót við reynsluna. Þó að veðrið hafi ekki verið það besta þá slapp þetta bara mjög vel til.“

Framkvæmdin til fyrirmyndar
Framkvæmd hlaupsins gekk vel og öll umgjörð hlaupsins var til fyrirmyndar. Hlaupið er skipulagt og haldið af sjálfboðaliðum í góðgerðarskyni og eru ýmis félagasamtök sem njóta góðs af framkvæmd hlaupsins, meðal annars Ungmennafélagið Katla, Jaðarsportklúbburinn Víkursport, Björgunarsveitin Víkverji og Kvenfélagið Ljósbrá. Verslunin Eirberg er helsti samstarfs- og styrktaraðili Mýrdalshlaupsins og fengu allir verðlaunahafar hlaupsins vinninga frá Eirberg.

Fjölskyldan sem heldur utan um skipulag og framkvæmd fislétt í upphafi dags. Ljósmynd/Páll Jökull Pétursson
Fyrri greinRangæingar fundu ekki taktinn
Næsta greinBergrós með silfur á HM í Perú