KR vann í kuldanum

Selfoss tók á móti KR í Lengjubikar karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Gestirnir sigruðu 0-1 í bragðdaufum leik.

Selfyssingar pressuðu fyrstu fimm mínútur leiksins og Ólafur Finsen var nálægt því að skora strax á 3. mínútu þegar hann skaut yfir af stuttu færi eftir góðan undirbúning Jóns Daða Böðvarssonar.

Að fimm mínútum liðnum tóku KR-ingar öll völd á vellinum og héldu boltanum vel innan síns liðs, án þess þó að skapa nokkur færi. Selfyssingar voru nær því að skora en á 28. mínútu hamraði Ólafur Finsen boltanum í þverslána á marki KR úr aukaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Abdoulaye Ndiaye rétt utan við vítateiginn.

Áfram sótti KR og á 32. mínútu varði Ismet Duracak, markvörður Selfoss, meistaralega skalla af stuttu færi frá Kjartani Henry Finnbogasyni. Á 45. mínútu átti Ivar Skjerve góða tilraun til sjálfsmarks þegar hann stýrði boltanum með brjóstkassanum að marki Selfoss en aftur sýndi Duracak frábær viðbrögð og varði.

Seinni hálfleikur var tíðindalítill og áhorfendur skemmtu sér við að telja snjókornin sem féllu eitt og eitt. Á 75. mínútu kom eina mark leiksins þegar Emil Atlason slapp á milli bakvarðar og miðvarðar eftir stungusendingu og kláraði vel framhjá Duracak.

Selfyssingar voru ekki nálægt því að skora en Jón Daði Böðvarsson átti heiðarlega skottilraun utan teigs á 90. mínútu en boltinn sigldi framhjá markinu.

Þetta var síðasti leikur liðanna í Lengjubikarnum. Selfyssingar eru í 6. sæti riðilsins með 4 stig, einn sigur og eitt jafntefli í sjö leikjum. KR er nú í 2. sæti og á möguleika á að komast í úrslitakeppnina tapi Blikar stigum á móti Víkingi Ólafsvík á laugardaginn.