KR skrefi á undan

Þórsarar hleyptu KR-ingum uppfyrir sig á stigatöflunni í Iceland Express deild karla í körfubolta í kvöld. Þór fékk KR í heimsókn þar sem gestirnir sigruðu 73-80.

KR-ingar voru stóru skrefi á undan í 1. leikhluta, skoruðu sex fyrstu stigin og leiddu 12-22 eftir tíu mínútna leik. Leikurinn snerist við í 2. leikhluta þar sem Þórsarar höfðu frumkvæðið og minnkuðu muninn í 35-37 með því að skora síðustu átta stigin í leikhlutanum.

Gestirnir settust aftur í bílstjórasætið í 3. leikhluta en munurinn varð ekki meiri en tíu stig og staðan var 53-61 þegar síðasti leikhlutinn hófst. Þar náðu Þórsarar að minnka muninn niður í sex stig, 63-69, en nær komust þeir ekki og KR-ingar kláruðu leikinn á vítalínunni.

Matthew Hairston skoraði 21 stig fyrir Þór, Guðmundur Jónsson 14, Blagoj Janev 13, Darrin Govens 12, Darri Hilmarsson 8 og Baldur Þór Ragnarsson 5.