Framlengingu þurfti til að knýja fram úrslit í leik Þórs og KR í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur í Þorlákshöfn urðu 123-126.
Leikurinn var jafn framan af en í 2. leikhluta náðu Þórsarar sjö stiga forystu og staðan var 65-58 í hálfleik. Þórsarar nýttu meðbyrinn í upphafi seinni hálfleiks og snemma í 4. leikhluta voru þeir komnir með 19 stiga forskot, 97-78. Þá fór allt í skrúfuna, KR gerði 19-2 áhlaup á skömmum tíma og þegar rúmar tvær mínútur voru eftir var staðan orðin 105-103. KR-ingar voru sterkari á lokamínútunum og þeir jöfnuðu af vítalínunni, 111-111, þegar þrjár sekúndur voru eftir.
Í framlengingunni féll allt með KR-ingum sem leiddu allan tímann og Þórsarar náðu rétt svo að narta í hælana á þeim.
Jacoby Ross fór á kostum í liði Þórs í kvöld, skoraði 31 stig, sendi 10 stoðsendingar og tók 9 fráköst. Djorde Dzeletovic og Rafail Lanaras voru sömuleiðis öflugir.
Þórsarar eru í 9. sæti deildarinnar með 8 stig en KR er í 6. sæti með 14 stig.
Þór Þ.-KR 123-126 (30-31, 35-27, 29-20, 17-33, 12-15)
Tölfræði Þórs: Jacoby Ross 31/9 fráköst/10 stoðsendingar, Rafail Lanaras 30/4 fráköst, Djordje Dzeletovic 29/12 fráköst/6 stoðsendingar, Lazar Lugic 12/5 fráköst, Skarphéðinn Árni Þorbergsson 11, Emil Karel Einarsson 8/5 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 2.

