KR marði Hamar

Hamar gaf KR ekkert eftir í lokaumferð Lengjubikars karla í körfubolta í DHL-höllinni í kvöld. KR kreisti fram sigur í lokaleikhlutanum, 77-68.

Fyrsti leikhlutinn var jafn, KR komst í 20-11, en Jerry Hollis skaut Hamar til baka og staðan var 22-20 að tíu mínútum liðnum. KR var skrefi á undan í 2. leikhluta og leiddi 42-35 í hálfleik.

Hamar byrjaði betur í seinni hálfleik og komst yfir, 45-47, eftir 2-12 áhlaup. KR-ingar ætluðu hins vegar ekki að láta Hvergerðinga taka sig í bakaríið á heimavelli og svöruðu fyrir sig aftur og leiddu 61-59 í lok 3. leikhluta.

KR náði tíu stiga forystu í upphafi síðasta fjórðungsins, 71-61, og Hamar svaraði með fimm stigum í röð en nær komust Hvergerðingar ekki og KR landaði níu stiga sigri gegn 1. deildarliðinu.

Jerry Hollis var stigahæstur hjá Hamri með 31 stig, Örn Sigurðarson skoraði 18, Ragnar Nathanaelsson 7, Þorsteinn Már Ragnarsson og Hjalti Valur Þorsteinsson 4 og þeir Lárus Jónsson og Halldór Gunnar Jónsson skoruðu 2 stig hvor.

Hamar lauk keppni í Lengjubikarnum með einn sigur í fjórða sæti riðilsins.

Fyrri greinMagnús J: Niðurskurður í grunnþjónustunni kominn að hættumörkum
Næsta greinÞór tapaði en fer samt í úrslit