Konunglegur sigur á Hvolsvelli

Guðmundur Gunnar Guðmundsson skoraði fjögur mörk og er markahæstur Rangæinga í sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

KFR vann sinn langstærsta sigur í sögu félagsins þegar liðið lagði Kóngana að velli í D-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur á Hvolsvelli urðu 18-0.

Stærstu sigrar KFR hingað til voru 7-1 sigrar á Afríku 2017 og Framherjum árið 1997. 

Ekki þarf að rýna mikið í tölurnar til þess að sjá að Rangæingar höfðu algjöra yfirburði frá upphafi en þeir komust yfir strax á 1. mínútu og í hálfleik var staðan orðin 11-0.

Guðmundur Gunnar Guðmundsson og Ævar Már Viktorsson skoruðu báðir 4 mörk fyrir KFR, Helgi Ármannsson, Hjörvar Sigurðsson og Reynir Óskarsson skoruðu allir 2 mörk og Jóhann Gunnar Böðvarsson 1 en gestirnir í Kóngunum gerðu sér lítið fyrir og skoruðu þrjú sjálfsmörk í leiknum.

KFR er í 3. sæti D-riðilsins með 13 stig en Kóngarnir eru stigalausir á botninum og hafa nú fengið á sig 94 mörk í átta leikjum í deildinni.