Kóngurinn framlengir og tveir prinsar bætast í hópinn

Dabbi kóngur og Jóhanna formaður handsala samninginn. Ljósmynd/Þór

Þorlákshafnar-Þórsarar eru byrjaðir að þétta raðirnar fyrir átökin í úrvalsdeild karla í körfubolta næsta vetur.

Þórsarar sömdu nýverið við þrjá leikmenn fyrir komandi tímabil. Þar skal fyrstan telja Davíð Arnar Ágústsson, Dabba kóng, sem hefur verið límið í Þórsliðinu síðastliðin ár.

Þá hafa Þórsarar fengið tvo leikmenn sem leikið hafa með Selfossi í 1. deildinni síðustu þrjú ár. Ölfusingurinn Ísak Júlíus Perdue snýr nú aftur í heimahagana eftir að hafa verið lykilmaður í Selfossliðinu og Mýrdælingurinn Skarphéðinn Árni Þorbergsson, 19 ára bakvörður, kemur einnig frá Selfossi en hann var með virkilega góðar tölur fyrir Selfoss á nýliðnu tímabili.

Einnig hafa Þórsarar gengið frá ráðningu Hjartar S. Ragnarssonar sem aðstoðarþjálfara liðsins. Hjörtur þekkir vel til liðsins en hann hefur starfað sem sjúkraþjálfari meistaraflokksliða Þórs og Hamars/Þórs og starfað við hlið Lárusar Jónssonar þjálfara.

Lárus þjálfari, Hjörtur aðstoðarþjálfari og Jóhanna formaður. Ljósmynd/Þór
Lárus þjálfari, Ísak Júlíus og Jóhanna formaður. Ljósmynd/Þór
Lárus Jónsson þjálfari býður Skarphéðinn Árna velkominn. Ljósmynd/Þór
Fyrri greinEldur kviknaði í kurlara
Næsta greinNý bók um þéttbýlisbyggð og horfin hús á Eyrarbakka