Kóngarnir réðu ríkjum á Selfossi

Árborgarar fengu löðrung í 1. umferð 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld þegar Kóngarnir komu í heimsókn. Gestirnir sigruðu 1-4.

Kóngarnir voru sterkari á upphafsmínútum leiksins en þegar Árborgarar voru að ná áttum og komast inn í leikinn laumuðu gestirnir inn marki, 0-1, og þannig stóðu leikar í hálfleik þrátt fyrir ágætar tilraunir Árborgara í síðari hluta fyrri hálfleiks.

Heimamenn fóru vel yfir málin í hálfleik en lögðu þó líklega ekki upp með að fá mark á sig strax á 2. mínútu seinni hálfleiks. Þriðja mark Kónganna kom á 54. mínútu en Árborgarar létu það ekki slá sig út af laginu og mínútu síðar minnkaði Hafþór Ingi Ragnarsson muninn, 1-3, þegar hann skoraði af harðfylgi úr markteignum.

Leikurinn var í jafnvægi eftir það en Árborgarar voru meira með boltann. Gestirnir skoruðu fjórða markið úr skyndisókn á 65. mínútu og eftir það fjaraði leikurinn út þó að bæði lið hafi átt færi á lokamínútunum.

Fyrri greinSagaði í fingur
Næsta greinÚlfur og Egill Íslandsmeistarar