Komust ekkert áleiðis gegn tíu Þrótturum

Alexander Clive Vokes sækir að marki Þróttar í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tók á móti Þrótti í 1. deild karla í knattspyrnu í dag í bongóblíðu á Jáverk-vellinum. Gestirnir unnu öruggan 0-2 sigur þrátt fyrir að hafa verið manni færri þriðjung leiksins.

Leikurinn var ákaflega rólegur í fyrri hálfleik, Þróttarar voru meira með boltann en Selfoss lá til baka og beitti skyndisóknum. Sú áætlun gekk næstum því upp hjá heimamönnum því á 32. mínútu slapp Frosti Brynjólfsson í gegn og átti bylmingsskot í þverslána á marki Þróttar. Sex mínútum síðar komst Þróttur yfir með marki Unnars Ingvarssonar, eftir hornspyrnu og staðan var 0-1 í hálfleik.

Selfyssingar lágu áfram í vörn í upphafi seinni hálfleiks og Þróttarar þjörmuðu vel að þeim á köflum. Annað markið leit dagsins ljós á 59. mínútu eftir mikil klafs í teignum sem lauk með glæsilegri hjólhestaspyrnu Vilhjálms Kaldal.

Á 64. mínútu fékk fyrirliði Þróttar sitt annað gula spjald og við það snerist leikurinn. Þróttarar féllu aftar til að halda fengnum hlut og Selfyssingar sóttu allt hvað af tók en varð ekkert ágengt gegn tíu Þrótturum. Gestirnir voru nær því að bæta við þriðja markinu úr skyndisóknum en hlutirnir voru alls ekki að falla með Selfyssingum inni í vítateig gestanna.

Selfyssingar eru áfram í 11. sæti deildarinnar með 6 stig en Þróttur fór upp í 4. sætið með 14 stig.

Fyrri greinFlakkandi Zelsíuz er nýtt úrræði fyrir ungmenni
Næsta greinJöfnunarmark í uppbótartímanum