„Komum hingað aftur fljótlega“

Katla María Magnúsdóttir sækir að marki ÍBV en Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er til varnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss tapaði í kvöld fyrir ÍBV í undanúrslitum bikarkeppninnar í handbolta í Laugardalshöllinni. Lokatölur urðu 29-26 eftir sveiflukenndan leik.

„Ég var ánægður með ansi margt, við komum vel inn í leikinn og gerum margt fínt. Við vissum alveg að þetta yrði erfitt og að við þyrftum að eiga nær fullkominn dag og mættum ekki gera okkur sekar um einföldu mistökin. Að sama skapi mátti ÍBV ekki hitta á sinn besta leik,“ sagði Eyþór Lárusson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Mér fannst þetta ganga vel, það kom einn kafli þar sem skildi á milli og þá vorum við að gera þessa einföldu feila og fá hraðaupphlaup í bakið. En síðan komum við til baka undir lokin og ég er bara ánægður með hugarfarið. Við erum að koma hingað í fyrsta skipti með ungt og óreynt lið og þetta er mikil reynsla fyrir þær. Ég lofa Selfyssingum því að við komum hingað aftur fljótlega,“ sagði Eyþór ennfremur.

Gáfust ekki upp fyrr en í fulla hnefana
Leikurinn var jafn fyrstu tíu mínúturnar en þá kom góður kafli hjá ÍBV og þær náðu þriggja marka forskoti, 7-4. Selfyssingar héldu sig í seilingarfjarlægð en undir lok fyrri hálfleiksins fóru nokkrar sóknir þeirra vínrauðu forgörðum og ÍBV leiddi 16-11 í hálfleik.

Selfoss byrjaði illa í seinni hálfleik og eftir sex mínútur var munurinn orðinn níu mörk. Úrslitin nánast ráðin en Selfyssingar gáfust ekki upp fyrr en í fulla hnefana og á síðustu fjórtán mínútunum náðu þær að minnka muninn niður í þrjú mörk, þrátt fyrir að missa bæði Tinnu Soffíu Traustadóttur og Elínborgu Kötlu Þorbjörnsdóttur meiddar af velli.

Selfoss gerði 6-1 áhlaup á síðustu sex mínútunum, en það var auðvitað allt of seint og ÍBV fagnaði sanngjörnum sigri, 29-26,

Katla María markahæst
Katla María Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 9/2 mörk, Arna Kristín Einarsdóttir skoraði 5, Rakel Guðjónsdóttir 4, Karen Helga Díönudóttir, Hulda Hrönn Bragadóttir og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 2 og þær Tinna Soffía Traustadóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu 1 mark hvor. Cornelia Hermansson varði 11 skot í marki Selfoss og var með 29% markvörslu.

Besti leikmaður vallarins var Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, sem skoraði 7/3 mörk og var markahæst hjá ÍBV. Hanna og stöllur hennar mæta Val í úrslitaleiknum á laugardaginn.

Eyþór Lárusson þjálfari, á hliðarlínunni í Laugardalshöllinni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Stuðningsmenn Selfoss fjölmenntu í stúkuna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

 

Þessar voru kátar í leikslok þrátt fyrir tapið. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinSannfærandi sigur í lokaumferðinni
Næsta grein„Góðir tímar framundan“