Komu stigalausir af Króknum

Máni Snær Benediktsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Uppsveitir hófu leik í 4. deild karla í knattspyrnu í dag þegar liðið heimsótti Tindastól á Sauðárkrók.

Stólarnir byrjuðu betur í leiknum og höfðu undirtökin framan af en fátt var um færi. Heimamenn komust yfir á 17. mínútu eftir hornspyrnu og í kjölfarið sóttu Uppsveitamenn í sig veðrið, án árangurs upp við markið.

Staðan var 1-0 í hálfleik og í upphafi seinni hálfleiks hélt Björn Mikael Karelsson, markvörður Uppsveita, sínum mönnum inni í leiknum með frábærum vörslum. Á 70. mínútum tókst Tindastóli að koma boltanum aftur í netið og staðan orðin 2-0.

Uppsveitir létu þetta ekki á sig fá heldur blésu til sóknar og á 89. mínútu náði Máni Snær Benediktsson að minnka muninn í 2-1. Nær komust Uppsveitamenn ekki og Tindastóll fagnaði sigri.

Liam hættur með liðið
Þetta hefur verið viðburðarík vika hjá Uppsveitum, sem kvöddu þjálfara sinn, Liam Killa í gær. Liam hættir af persónulegum ástæðum og eru Uppsveitamenn nú í þjálfaraleit. Matthías Bjarnason stýrði liðinu í dag og munu þeir Gísli Þór Brynjarsson sjá um þjálfun liðsins þar til nýr þjálfari finnst.

Fyrri greinLay Low með tónleika á Hellu
Næsta greinLeituðu gönguskíðahóps í þreifandi byl á Vatnajökli