Komið að okkur að afsanna spána

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennaliði Selfoss er spáð 6. sæti í Bestu deildinni í knattspyrnu í sumar. Spáin var opinberuð á kynningarfundi deildarinnar í dag.

Breiðabliki er spáð Íslandsmeistaratitlinum og Keflavík og Tindastóll eru í fallsætunum.

Fulltrúar liðanna gáfu viðbrögð sín við spánni á fundinum en Selfyssingar voru fjarverandi þar sem liðið er í æfingaferð á Tenerife.

Í einkaviðtali við sunnlenska.is sagði Unnur Dóra Bergsdóttir, fyrirliði Selfoss, að markið væri sett hærra en spáin segði til um.

„Auðvitað er markmiðið alltaf að stefna hærra og gera betur en árið áður. Spá er vissulega bara spá en núna er komið að okkur að afsanna hana og gera vel í sumar,“ segir Unnur Dóra en Selfyssingar urðu í 5. sæti í deildinni í fyrra.

„Æfingaferðin gengur vel og stemningin hjá okkur er geggjuð. Andinn gæti ekki verið betri í hópnum og við mætum tilbúnar í slaginn í næstu viku,“ bætti hún við.

Opnunarleikur Bestu deildar kvenna 2023 er viðureign ÍBV og Selfoss á Hásteinsvelli, næstkomandi þriðjudag, þann 25. apríl kl. 18:00.

Spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna í Bestu deild kvenna:
1. Breiðablik 242
2. Stjarnan 238
3. Valur 216
4. Þróttur 198
5. Þór/KA 154
6. Selfoss 145
7. ÍBV 106
8. FH 75
9. Keflavík 60
10. Tindastóll 51

Fyrri greinVilja heilsársveg yfir Kjöl í einkaframkvæmd
Næsta grein57 starfsmönnum Árborgar sagt upp