Kolbrún Katla vann brons á EM

Fulltrúar Íslands á Evrópumeistaramótinu í Ungverjalandi; Kolbrún Katla, Gabríel Ómar Hafsteinsson og Pedro Monteiro De Oliveira. Ljósmynd/Kraftlyftingasamband Íslands

Kolbrún Katla Jónsdóttir, frá Lyngholti í Flóahreppi, náði frábærum árangri á Evrópumeistaramóti unglinga í klassískum kraftlyftingum sem lauk í Búdapest í Ungverjalandi í gær.

Kolbrún vann bronsverðlaun í +84 kg flokki eftir harða keppni. Í hnébeygjunni var keppnin hnífjöfn en Kolbrún lyfti 205 kg á hörkunni eftir að hafa fengið 195 kg lyftu dæmda ógilda. Hún tryggði sér þar með silfurverðlaun í greininni og það gerði hún einnig í bekkpressu þar sem hún lyfti 75, 77,5 og 80 kg.

Réttstöðulyftan reyndist Kolbrúnu hins vegar erfið þar sem hún sat uppi með byrjunarþyngdina, 175 kg. Samanlagt lyfti hún því 457,5 kg og náði þriðja sætinu í flokknum.

Kolbrún Katla, sem æfir hjá kraftlyftingadeild Breiðabliks í Kópavogi, hefur náð frábærum árangri á stuttum tíma í kraftlyftingunum síðan hún keppti á sínu fyrsta móti í mars í fyrra. Hún varð Íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum í ár og í síðasta mánuði keppti hún á heimsmeistaramóti unglinga í Rúmeníu, þar sem hún vann til bronsverðlauna í hnébeygju.

Fyrri greinGul viðvörun: Stormur á Suðurlandi
Næsta greinAlexander Adam í liði Íslands á MXoN