Knattspyrna: Selfoss fær ungan framherja frá KR

Karlalið Selfoss hefur fengið framherjann Davíð Birgisson á láni frá KR en lánssamningurinn gildir út sumarið. Í samningnum er klásúla þess efnis að Davíð má ekki spila með Selfyssingum gegn KR þegar að liðin mætast í 2. og 13. umferð Pepsi-deildarinnar í sumar.

Davíð hefur æft með Selfyssingum undanfarna daga en þessi 19 ára gamli leikmaður skoraði í 2-1 sigri Selfyssinga í æfingaleik gegn Hamar á þriðjudagskvöld.

Davíð er uppalinn hjá KR en síðastliðið sumar var hann markahæstur í A deild hjá 2.flokki þegar að KR-ingar urðu Íslandsmeistarar. Sumarið 2008 lék Davíð þrjá leiki með meistaraflokki KR en hann kom ekki við sögu hjá liðinu síðastliðið sumar.

Davíð er kominn með leikheimild með Selfyssingum þannig að hann getur leikið með liðinu gegn FH í Lengjubikarnum á sunnudag.

Fyrri greinVarað við eiturgufum
Næsta greinHveragerði: Aldís í fjórða sæti