Knattspyrna: Meistararnir lögðu Selfoss

Selfyssingar tóku á móti FH í Kórnum í kvöld í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu. Íslandsmeistararnir unnu nokkuð öruggan sigur, 0-3, og gáfu Selfyssingum smjörþefinn af úrvalsdeildarfótbolta.

Það voru þó Selfyssingar sem byrjuðu leikinn betur og þeir fengu þrjú prýðileg færi áður en FH-ingar létu til sín taka. M.a. skaut Sævar Þór Gíslason í þverslána eftir frábæran undirbúning frá Jóni Daða Böðvarssyni.

FH komst yfir á 31. mínútu en það sem eftir lifði fyrri hálfleiks voru Selfyssingar sterkari aðilinn og fengu þrjú góð færi fyrir leikhlé.

Drengirnir úr Fimleikafélaginu voru allsráðandi á upphafsmínútum seinni hálfleiks og bættu tveimur mörkum við á fyrsta korterinu. Eftir það róaðist leikurinn og Selfyssingar fengu tvö færi undir lokin en voru mislagðir fætur eins og áður í leiknum.

Byrjunarlið Selfoss: Jóhann Ólafur Sigurðsson, Jón Sveinsson (Ingólfur Þórarinsson +60), Kjartan Sigurðsson, Agnar Bragi Magnússon, Andri Freyr Björnsson, Guðmundur Þórarinsson, Jón Guðbrandsson (Ingi Rafn Ingibergsson +76), Stefán Ragnar Guðlaugsson, Jón Daði Böðvarsson, Davíð Birgisson (Arilíus Marteinsson +60) og Sævar Þór Gíslason (Ingþór Guðmundsson +86).

Fyrri greinFimmvörðuháls: Snúið við á gallabuxum og leðurjakka
Næsta greinHeldur minni virkni í gosinu