Kjartan skoraði þrennu

Árborg vann öruggan en nokkuð torsóttan sigur á Ísbirninum í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld, 1-4.

Ísbjörninn beit frá sér í upphafi og átti hættuleg færi áður en Árborgarar komust í 0-1. Kjartan Atli Kjartansson fékk þá sendingu innfyrir vörn Ísbjarnarins og skoraði af öryggi.

Rúmum tíu mínútum síðar skoraði Ísbjörninn af öryggi úr aukaspyrnu við vítateig Árborgar en Árborg komst yfir fyrir leikhlé þegar brotið var á Kjartani á 41. mínútu innan vítateigs. Hann fór sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi.

Seinni hálfleikur var jafnari en sá fyrri en Árborgarar áttu hættulegri færi framan af. Ísbjörninn átti þó ágætar skyndisóknir og Árborgarar voru alls ekki öruggir með sigurinn í stöðunni 1-2.

Pressunni létti ekki af Árborg fyrr en á 90. mínútu þegar Guðmundur Garðar Sigfússon fékk boltann innfyrir vörnina og skoraði og mínútu síðar kom fjórða markið af vítapunktinum frá Kjartani, eftir að brotið hafði verið á Hartmanni Antonssyni innan vítateigsins.

Árborg er í 6. sæti A-riðils með 8 stig að sex umferðum loknum.