Kjartan gerður að heiðursfélaga GLÍ

Heiðursfélagarnir Kjartan Lárusson og Sigurjón Leifsson á ársþingi Glímusambands Íslands um helgina. Ljósmynd/Aðsend

Um helgina fór fram 57. ársþing Glímusamband Íslands fram. Einn af hápunktum þingsins var að Laugdælingurinn Kjartan Lárusson var kjörinn heiðursfélagi GLÍ, ásamt Sigurjóni Leifssyni.

Kjartan Lárusson er fjölhæfur íþróttamaður og hafði hann orðið Íslandsmeistari, héraðsmeistari og UMFÍ meistari í fjölda íþróttagreina áður en hann hóf að læra og iðka glímu árið 1985. Hann hefur bæði keppt í og kennt og þjálfað glímu síðan. Kjartan hefur unnið til verðlauna á Íslandsglímu og á Íslandsmeistaramótum og einnig orðið Bikarmeistari GLÍ. Hann varð Skjaldarhafi Skarphéðins tvö ár í röð, 1986 og 1987, og einu sinni Fjórðungsmeistari Suðurlands.

Kjartan er mikill félagsmálamaður og hélt uppi öflugu glímustarfi á Laugarvatni þar sem hann kenndi hundruðum nemenda glímu í tugi ára, jafnframt því að fara víða um land til glímukennslu. Hann fór hringferð um landið, ásamt Rögnvaldi Ólafssyni, fyrrverandi formanni GLÍ, þar sem glíman var kynnt í fjölda skóla í dreifbýli og á flestum þéttbýlisstöðum landsins. Ætla má að Kjartan hafi kynnt og kennt þúsundum barna og ungmenna glímu.

Kjartan sat í stjórn GLÍ í nokkur ár og var varaformaður um tíma auk þess sem hann hefur stjórnað óteljandi glímumótum sem dómari í héraði og á landsvísu. Hann hlaut dómararéttindi árið 1992 og hefur látið til sín taka í dómaramálum og dómgæslu allar götur síðan. Hann settist í stjórn Glímudómarafélags Íslands árið 1999 og hefur verið formaður þess frá 2007. Kjartan hefur notið virðingar sem glímudómari og var kosinn besti glímudómarinn sjö sinnum af þeim tíu skiptum sem sú kosning fór fram.

Auk nýfenginnar heiðursfélaganafnbótar hefur Kjartan hlotið margháttaðar viðurkenningar fyrir störf sín að glímu og félagsmálum. Hann hefur verið sæmdur gullmerki Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Glímusambands Íslands, HSK og Umf. Laugdæla, starfsmerki UMFÍ og árið 2016 fékk hann nafnbótina öðlingur ársins hjá HSK.

Fyrri greinÞórsarar töpuðu toppslagnum
Næsta greinTveir í einangrun í Vík