Kjalnesingar stálu sigrinum

Gnúpverjar eru fallnir úr leik í VISA-bikar karla í knattspyrnu eftir 1-4 tap gegn Kjalnesingum í kvöld. Úrslitin voru útkljáð í vítaspyrnukeppni.

Leikið var á gervigrasinu í Laugardal þar sem liðin tókust hart á í markalausum fyrri hálfleik. Kristján Valur kom Gnúpverjum yfir í seinni hálfleik en dómari leiksins lumaði á sex mínútna uppbótartíma og á síðustu sekúndu leiksins jöfnuðu Kjalnesingar metin.

Leikurinn fór því í framlengingu, sem var markalaus og því var gripið til vítaspyrnukeppni. Þar stóðu Kjalnesingar sig betur því Gnúpverjar nýttu enga spyrnu á meðan Kjalnesingar skoruðu úr þremur.

„Við vorum orðnir þreyttir undir lokin en þetta var virkilega skemmtilegur leikur og fínn fótbolti á köflum,“ sagði Geir Leó Guðmundsson, þjálfari Gnúpverja, í samtali við sunnlenska.is.

„Ég veit ekki hvar dómarinn gróf upp þennan uppbótartíma en við vorum að standa okkur vel í leiknum og Kjalnesingar stálu þessu algjörlega,“ sagði Geir.

Lið Gnúpverja er skipað leikmönnum utandeildarliðsins SÁÁ en eins og tíðkast í VISA-bikarnum þurfa utandeildarlið að „fá lánuð“ nöfn íþróttafélaga innan KSÍ til að vera gjaldgeng í keppninni. „Það er sannarlega heiður fyrir okkur að halda nafni Gnúpverja á lofti og við þökkum þeim fyrir samvinnuna,“ sagði Geir Leó að lokum.

Fyrri greinHákon og Kristinn í Hamar
Næsta greinReyndi að brjótast inn hjá fyrrverandi