Kiwanisklúbburinn Búrfell á Selfossi færði á dögunum fimleikadeild og frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss veglega styrki til að efla starfsemi deildanna.
Styrkurinn til fimleikadeildarinnar var með það að markmiði að kaupa ný áhöld fyrir litla íþróttaskólann. Yfir 120 börn koma þangað á sunnudagsmorgnum til þess að njóta sín í íþróttaskólanum og skilar þessi styrkur sér því beint í starfið til þeirra.
Diðrik Haraldsson, forseti Búrfells, sagði að það væri þeim mikilvægt að styðja uppbyggingu barnastarfs, þar sem að börnin væru framtíðin og því þarft að stuðla að góðum grunni fyrir þau. Þá sagði hann árangur fimleikadeildarinnar eftirtektarverðan og því vilji til þess að styrkja starfið.
Með styrknum til frjálsíþróttadeildarinnar fylgdi jafnframt innilegt þakklæti til allra þeirra sem hafa tekið þátt í sölu á K-lyklinum undanfarin ár. Iðkendur hjá frjálsíþróttadeildinni hafa verið virkir þátttakendur í þeirri sölu og lagt sitt af mörkum til að styrkja gott málefni.
Þeir Diðrik Haraldsson og Hilmar Björnson, formaður styrkarsjóðs Búrfells, mættu í félagsheimilið Tíbrá til að afhenda styrkina en á móti þeim tóku Aníta Þorgerður Tryggvadóttir, deildarstjóri yngsta stigs hjá fimleikadeildinni og Hjalti Jón Kjartansson, formaður frjálsíþróttadeildarinnar.


