KFR vann Suðurlandsslaginn

Jóhann Gunnar Böðvarsson og Arilíus Óskarsson skoruðu báðir í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

KFR og Stokkseyri áttust við í stórskemmtilegum knattspyrnuleik á SS-vellinum á Hvolsvelli í kvöld en liðin eru að berjast í B-riðli 4. deildarinnar og með sigri hefði Stokkseyri komist upp fyrir KFR á stigatöflunni.

Leikurinn byrjaði fjörlega en Aron Arnalds setti aukaspyrnu í þverslána á marki Stokkseyrar áður en Arilíus Óskarsson slapp í gegn á 10. mínútu og skoraði gott mark fyrir gestina.

Forysta Stokkseyringa hélt þó ekki lengi og KFR sneri leiknum sér í vil á tveggja mínútna kafla. Fyrst skoraði Benedikt Óskar Benediktsson af harðfylgi á 19. mínútu og tveimur mínútum síðar skallaði Jóhann Gunnar Böðvarsson aukaspyrnu Ævars Más Viktorssonar í netið.

Staðan var 2-1 í hálfleik og Rangæingar byrjuðu vel í seinni hálfleik. Þórhallur Lárusson komst í gott færi á 59. mínútu en Eyþór Gunnarsson varði frá honum og tveimur mínútum síðar átti Ævar Már skot rétt framhjá marki Stokkseyrar eftir skógarhlaup Eyþórs.

Stokkseyringar sóttu í sig veðrið eftir þetta án þess að skapa sér færi en baráttan var mikil á miðsvæðinu og stutt í pirringinn í þessum nágrannaslag, auk þess sem bæði lið létu ákvarðanir dómarans ítrekað fara í taugarnar á sér.

Á 86. mínútu gerðu Rangæingar svo til út um leikinn. Jou Calzada átti þá frábæran sprett upp völlinn sem endaði með skoti í varnarmann og framhjá Eyþóri í markinu, 3-1. Fjórum mínútum síðar komust Rangæingar aftur í skyndisókn þar sem Stefán Bjarki Smárason geystist upp völlinn. Eyþór mætti honum í ævintýralegu skógarhlaupi út á hægri kantinum en Stefán slapp framhjá honum og renndi boltanum í markið af löngu færi.

Björn Mikael Karelsson, markvörður KFR, hreifst greinilega af skógarhlaupi Eyþórs, því hann reyndi svipuð tilþrif úti á vellinum í fjórum mínútum síðar, en missti boltann og Andri Einarsson skoraði auðveldlega í autt markið með skoti utan teigs. Það reyndist síðasta spyrna leiksins og lokatölur urðu 4-2.

Eftir leiki kvöldsins er KFR í 2. sæti B-riðils með 14 stig en Stokkseyri er í 5. sæti með 10 stig.

Hamar vann – Drama hjá Árborg – Uppsveitir töpuðu
Önnur úrslit kvöldsins í 4. deildinni urðu þau að Hamar vann KM örugglega í C-riðlinum, 0-4, en staðan var 0-2 í hálfleik. Atli Þór Jónasson, Oskar Dagur Eyjólfsson, Bjarki Rúnar Jónínuson og Matthías Rocha skoruðu mörk Hamars sem er í toppsæti C-riðils með 21 stig. 

Árborg gerði 3-3 jafntefli við Hörð á Ísafirði en staðan var 2-2 í hálfleik. Aron Freyr Margeirsson og Guðmundur Garðar Sigfússon skoruðu fyrir Árborg í fyrri hálfleik en hápunktur leiksins var stórkostlegt mark Inga Rafns Ingibergssonar um miðjan seinni hálfleikinn en hann klíndi boltanum viðstöðulaust upp í samskeytin utan af velli. Hörður jafnaði metin í uppbótartímanum. Árborg er í 3. sæti D-riðils með 14 stig.

Þá töpuðu Uppsveitir heima gegn Ými, 1-3. Staðan var 0-2 í hálfleik og Ýmir komst í 0-3 áður en Máni Snær Benediktsson minnkaði muninn fyrir ÍBU á lokakaflanum. ÍBU er í 7. sæti A-riðils með 6 stig.

Fyrri greinHjartastaður endurútgefin – Útgáfuhóf í Bókakaffinu
Næsta greinLést eftir umferðarslys í Hrunamannahreppi