KFR vann stórsigur – Stokkseyri tapaði

Hjalti Kristinsson skoraði mark KFR. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

KFR vann öruggan sigur á Elliða í B-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Stokkseyri tapaði fyrir toppliði ÍH.

Rangæingar lögðu grunninn að góðum sigri í fyrri hálfleik á Hvolsvelli þar sem þeir komust í 4-0 á fimmtán mínútna kafla undir lok hálfleiksins. Hjörvar Sigurðsson skoraði tvö fyrstu mörkin og Elimar Hauksson og Przemyslaw Bielawski síðan bættu við mörkum. Elliði minnkaði muninn á 42. mínútu en Hjalti Kristinsson bætti fimmta marki KFR við á 44. mínútu.

Seinni hálfleikurinn var ekki eins fjörugur en Benedikt Benediktsson skoraði sjötta mark KFR þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum og tryggði þeim 6-1 sigur.

Stokkseyringar voru nálægt því að ná í stig þegar þeir mættu toppliði ÍH á útivelli. ÍH leiddi 1-0 í hálfleik og á 68. mínútu bættu þeir öðru marki við. Bjarki Freyr Guðmundsson minnkaði muninn fyrir Stokkseyri með glæsilegu skallamarki á 90. mínútu og Guðni Þór Þorvaldsson átti svo skot í þverslána í blálokin en inn vildi boltinn ekki. Lokatölur 2-1.

KFR er í 3. sæti riðilsins með 13 stig en Stokkseyringar í 6. sæti með 10 stig.

Fyrri greinÁrsmiðinn í formi derhúfu
Næsta greinEinar Bárðar ráðinn samskiptastjóri