KFR vann en Hamar fékk skell

KFR vann Skínanda í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. Hamar mætti HK og tapaði stórt.

Skínandi komst yfir á 20. mínútu leiksins en Hjalti Kristinsson jafnaði metin fyrir KFR á 33. mínútu. Staðan var 1-1 í hálfleik.

Skínandi komst aftur yfir á 54. mínútu en tveimur mínútum síðar jafnaði Guðbergur Baldursson fyrir KFR og Hjalti tryggði Rangæingum svo sigurinn með öðru marki sínu á 83. mínútu leiksins. KFR varð því í 2. sæti síns riðils en KB vann riðilinn örugglega.

Hvergerðingar fengu stóran skell þegar Hamar mætti HK á Selfossvelli í dag. Eftir tæplega hálftíma leik var staðan orðin 0-4 og hálfleikstölur voru 0-5.

HK bætti þremur mörkum við í upphafi síðari hálfleiks og lokatölur urðu 0-8. Samkvæmt leikskýrslu á ksi.is voru áhorfendur á leiknum 22.931 talsins.

Hamar varð í 5. sæti síns riðils með 6 stig.

Fyrri greinSigur á línuna
Næsta greinGrunnur að skipulagi Þjórsárdals