KFR vann á flautumarki – Árborg með stórsigur

Hjörvar Sigurðsson sækir að marki Skautafélags Reykjavíkur í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Rangæinga vann sætan sigur á Skautafélagi Reykjavíkur í C-deild deildarbikars karla í knattspyrnu í dag. Árborg vann stórsigur á Létti í Breiðholti.

Það var mikið fjör á Selfossvelli í dag þar sem KFR og SR mættust og liðin skiptust á að skora. SR komst yfir strax á 2. mínútu en Rúnar Þorvaldsson jafnaði á 20. mínútu. Aftur komust gestirnir yfir en Hjörvar Sigurðsson jafnaði á 43. mínútu og staðan var 2-2 í leikhléi.

Rangæingar voru fyrri til að skora í seinni hálfleik en þeir fengu vítaspyrnu á upphafsmínútunum og Hjörvar skoraði úr henni. SR jafnaði 3-3 tíu mínútum síðar en á 61. mínútu kom Helgi Valur Smárason KFR í 4-3. Sú forysta varði í rúmar tíu mínútur því aftur jöfnuðu Skautafélagsmenn, 4-4. Það dró næst til tíðinda í uppbótartímanum þegar Hjörvar Sigurðsson tryggði KFR 5-4 sigur á síðustu sekúndunni og kórónaði um leið þrennu sína.

Árborg skoraði sex
Það var minni spenna í leik Léttis og Árborgar á ÍR-vellinum í Breiðholti. Eftir hálftíma leik skoraði Kristinn Sölvi Sigurgeirsson tvívegis með stuttu millibili og Sigurður Óli Guðjónsson bætti þriðja markinu við undir lok fyrri hálfleiks.

Staðan var 3-0 í hálfleik en Léttir minnkaði muninn þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Árborgarar sóttu þá í sig veðrið og þeir Arilíus Óskarsson, Ævar Már Viktorsson og Kristinn Ásgeir Þorbergsson bættu allir við mörkum fyrir Árborg sem sigraði 1-6.

KFR og Árborg eru saman í riðli-3 í C-deildinni og hafa bæði lið 4 stig eftir tvær umferðir í 2.-3. sæti riðilsins en Árborg hefur mun hagstæðara markahlutfall.

Fyrri greinTrausti nýr formaður Bændasamtakanna
Næsta greinSelfyssingar öflugir á Góumóti JR