
Knattspyrnufélag Rangæinga tryggði sér í dag sæti í 4. deild karla á næsta keppnistímabili eftir 4-1 sigur á Skallagrími í seinni viðureign liðanna í úrslitakeppni 5. deildar á Hvolsvelli í dag.
Skallagrímur vann fyrri leikinn 2-1 og þegar 90 mínútur voru liðnar í dag var KFR 2-1 yfir og staðan í einvíginu því 3-3. Því þurfti að grípa til framlengingar og þrátt fyrir að Rangæingar hafi lokið leik tíu á móti ellefu þá tókst þeim að skora tvisvar og sigra 5-3 samanlagt.
Leikurinn byrjaði ekki gæfulega fyrir KFR því Skallagrímur komst í 0-1 strax á 4. mínútu. Í kjölfarið sótti KFR stíft og Helgi Valur Smárason náði að jafna metin á 30. mínútu. Heiðar Óli Guðmundsson skoraði svo á 43. mínútu og staðan var 2-1 í hálfleik. Rangæingar sóttu stíft í seinni hálfleiknum en Skallagrímur fékk líka prýðileg færi. Inn vildi boltinn ekki og því var gripið til framlengingar.
Fyrri hálfleikur framlengingarinnar var markalaus en á 109. mínútu kom Þórður Kalman Friðriksson KFR yfir með góðu marki og fögnuðurinn var mikill. Þegar fimm mínútur voru eftir af framlengingunni fékk Dagur Þórðarson sitt annað gula spjald og KFR því manni færri. Nokkrum augnablikum síðar geystist Helgi Valur fram með boltann í skyndisókn og hann renndi honum svo á Bjarna Þorvaldsson sem skoraði af miklu öryggi og gerði þar með út um einvígið.
Úrslitaleikur 5. deildarinnar fer fram á fimmtudagskvöld og þar mætir KFR annað hvort Úlfunum eða Álafossi.