KFR undir þegar einvígið er hálfnað

Hákon Kári Einarsson skoraði fyrir KFR. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

KFR heimsótti Skallagrím í Borgarnes í fyrri leik liðanna í úrslitakeppni 5. deildar karla í knattspyrnu í dag.

KFR vann B-riðilinn í sumar en Skallagrímur varð í 2. sæti í A-riðlinum. Liðin mætast heima og heiman og samanlögð úrslit ráða því hvort liðið fer upp í 4. deildina.

Leikurinn í dag var í járnum allan tímann. Staðan var 0-0 í hálfleik en Elís Gylfason kom Skallagrím yfir þegar tæpt korter var liðið af seinni hálfleik. Fimm mínútum síðar jafnaði Hákon Kári Einarsson fyrir KFR og allt stefndi í jafntefli, þar til þrjár mínútur voru eftir af leiknum að Elís skoraði aftur og tryggði Skallagrím 2-1 sigur.

Seinni leikur liðanna verður á Hvolsvelli laugardaginn 6. september.

Fyrri greinBáðum Selfossliðunum spáð falli
Næsta greinSterkur útisigur inni í Akraneshöllinni