KFR tryggði sér deildarmeistaratitillinn

KFR með sigurlaunin á Varmárvelli í Mosfellsbæ í kvöld. Ljósmynd/Aðsend

KFR vann endurkomusigur gegn Álafossi í úrslitaleik 5. deildar karla í knattspyrnu í Mosfellsbæ í kvöld. Lokatölur urðu 2-3 eftir æsispennandi leik og Rangæingar tryggðu sér þar með deildarmeistaratitilinn.

Fyrir leikinn höfðu bæði liðin tryggt sér sæti í 4. deildinni að ári. KFR skellti Skallagrím í undanúrslitum á meðan Álafoss lagði Úlfana.

Mosfellingar urðu fyrri til að skora í kvöld en Alexander Aron Davorsson kom þeim yfir á 10. mínútu. Sú forysta varði ekki lengi því Bjarni Þorvaldsson jafnaði metin fyrir KFR strax í næstu sókn. Álafoss átti lokaorðið í fyrri hálfleik en Alexander var aftur á ferðinni á 29. mínútu og staðan var 2-1 í leikhléi.

Seinni hálfleikurinn var í járnum en um hann miðjan fékk KFR vítaspyrnu og úr henni jafnaði Helgi Valur Smárason, 2-2. Það var svo ekki fyrr en sex mínútum fyrir leikslok að Þórður Kalman Friðriksson tryggði KFR 2-3 sigur og þar með deildarmeistaratitilinn og Rangæingar fögnuðu vel í leikslok.

Fyrri greinAllt í járnum í Breiðholtinu
Næsta greinFimm einkasýningar opnaðar í Listasafni Árnesinga