KFR þarf enn að bíða – Stokkseyringar fallnir

Bjarni Þorvaldsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

KFR missteig sig annan leikinn í röð í toppbaráttu 5. deildar karla í knattspyrnu þegar liðið heimsótti Úlfana í kvöld. Úlfarnir sigruðu 3-2.

Rangæinga vantar einn sigur til þess að tryggja sig inn í úrslitakeppnina en tvö töp í röð hafa sett toppbaráttuna í algjöran hnút. KFR á einn leik eftir, gegn Skautafélagi Reykjavíkur, og þarf sigur þar því Úlfarnir, Spyrnir og BF 108 anda nú öll niður um hálsmálið á Rangæingum.

Úlfarnir byrjuðu betur á Framvellinum í Úlfarsárdal í kvöld og leiddu 2-0 í hálfleik. Bjarni Þorvaldsson minnkaði muninn þegar korter var liðið af seinni hálfleik en Úlfarnir bættu þriðja markinu við þegar tæpt korter var eftir. Dagur Þórðarson minnkaði muninn í 3-2 þegar tíu mínútur voru eftir og nær komst KFR ekki.

Þrátt fyrir tapið er KFR enn í toppsæti B-riðils  með 25 stig, Úlfarnir eru í 2. sæti með 23 stig og bæði þessi lið eiga einn leik eftir. Spyrnir og BF 108 eiga tvo leiki eftir og eru nú með 21 og 20 stig, þannig að toppbaráttan mun ekki ráðast fyrr en síðasti leikurinn í riðlinum verður flautaður af næstkomandi mánudagskvöld.

Rangæingar taka á móti SR á Hvolsvelli í hádeginu á laugardaginn og nægir sigur þar til þess að komast í úrslitakeppnina.

Örlög Stokkseyringa réðust hins vegar í gærkvöldi þegar SR vann RB 4-0. Þrátt fyrir að eiga tvo leiki eftir eru Stokkseyringar fallnir úr 5. deildinni og munu leika í utandeildinni á næsta keppnistímabili.

Fyrri greinSveitahátíð með rótgrónu sniði
Næsta greinMia markahæst í stórsigri Selfoss