KFR tapaði í markaleik

KFR tapaði fyrir Sindra, 3-4, þegar liðin mættust í Lengjubikar karla á Selfossvelli í kvöld.

KFR var komið í 2-0 eftir 26 mínútna leik en Reynir Björgvinsson skoraði bæði mörkin. Sindramenn minnkuðu muninn á síðustu andartökum fyrri hálfleiks þegar Gunnar Ingi Valgeirsson skoraði.

Hann var aftur á ferðinni á 62. mínútu og jafnaði 2-2 en sú staða varði ekki lengi. Gunnar Ragnarsson kom KFR aftur yfir tveimur mínútum síðar með glæsilegu marki beint úr hornspyrnu.

Þrátt fyrir þunga sókn þegar leið á síðari hálfleik og nokkur dauðafæri tókst KFR ekki að gera út um leikinn. Alex Freyr Hilmarsson jafnaði 3-3 fyrir Sindra á 71. mínútu og Kristinn Þór Guðlaugsson skoraði sigurmarkið á 83. mínútu eftir skyndisókn.

KFR er án stiga í riðlinum og á eftir leik gegn Augnablik sem einnig eru stigalausir. Sindri á ennþá möguleika á efsta sætinu en til þess að ná því þarf liðið að leggja Árborg með sex marka mun í lokaumferðinni.

Fyrri greinSelfosskonur lögðu ÍA
Næsta greinFrjálsir kettir fangaðir