KFR tapaði heima

Knattspyrnufélag Rangæinga fékk Hött frá Egilsstöðum í heimsókn í 3. deild karla í knattspyrnu í dag. Eftir jafnan leik höfðu gestirnir betur 0-2.

Hattarmenn léku með vindinn í bakið í fyrri hálfleik og uppskáru mark strax á 10. mínútu. Staðan var orðin 0-2 eftir 25. mínútna leik og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var jafn, líkt og sá fyrri og bæði lið áttu ágætisfæri. Andri Freyr Björnsson komst næst því að skora fyrir KFR þegar hann skallaði boltann í þverslána og niður á línu á 75. mínútu en nær komust heimamenn ekki.

KFR er í 7. sæti 3. deildarinnar og ekki alveg laust við falldrauginn þegar þrjár umferðir eru eftir. Eins og staðan er í dag þurfa Rangæingar þrjú stig til viðbótar til þess að tryggja sæti sitt í deildinni.

Fyrri greinAfréttir smalaðir strax ef eldgos hefst
Næsta greinSkipað í fjóra starfshópa