KFR tapaði í lokaumferðinni

Keppni í 3. deild karla í knattspyrnu lauk í gær en KFR heimsótti Víði í lokaumferðinni og tapaði 4-1.

Heimamenn komust yfir á 24. mínútu og bættu við öðru marki tæpum tíu mínútum síðar, þannig að staðan var 2-0 í hálfleik.

Víðismenn gerðu svo út um leikinn með tveimur mörkum með stuttu millibili í upphafi síðari hálfleiks.

Markús Árni Vernharðsson klóraði í bakkann fyrir KFR á 76. mínútu og lokatölur urðu 4-1.

Sveinbjörn Jón Ásgrímsson, annar þjálfara liðsins, kom inná þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum og er hann líklega elsti leikmaðurinn sem leikið hefur með KFR á Íslandsmóti, 47 ára gamall.

Þá er ógetið frammistöðu varamarkvarðarins knáa, Magnúsar Kjartans Eyjólfssonar, en hann lék síðustu tuttugu mínútur leiksins og hélt búrinu að sjálfsögðu hreinu.

Rangæingar luku keppni í 3. deildinni í 8. sæti. Eftir frábæra byrjun í vor dalaði gengi liðsins töluvert og falldraugurinn var á sveimi í Rangárþingi. Hann var þó kveðinn niður fyrir skömmu og KFR lauk keppni með 18 stig, fimm stigum fyrir ofan Berserki sem féllu ásamt Álftanesi.

Fyrri greinTelur ferðamátann hættulegan vegna aksturslagsins
Næsta greinÓskar hættur eftir tuttugu ára starf