KFR styrkti stöðu sína – Stokkseyri tapaði heima

Alexander Hrafnkelsson lætur vaða að marki BF 108 í kvöld en inn vildi boltinn ekki. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

KFR vann góðan sigur á SR í B-riðli 5. deildar karla í knattspyrnu í kvöld á sama tíma og Stokkseyri tapaði gegn BF 108.

KFR er í harðri toppbaráttu og þurfti nauðsynlega á sigri að halda gegn Skautafélagi Reykjavíkur. Fyrri hálfleikur á Þróttaravellinum var markalaus allt þar á síðustu þremur mínútunum að Helgi Valur Smárason skoraði tvívegis fyrir KFR.

Staðan var 0-2 í hálfleik og strax á upphafsmínútum seinni hálfleiksins breytti Hákon Kári Einarsson stöðunni í 0-3. Skautakapparnir voru ekki hættir og þeir minnkuðu muninn í næstu tveimur sóknum og staða skyndilega orðin 2-3. Rangæingar héldu haus og korteri fyrir leikslok kom Unnar Jón Ásgeirsson boltanum í netið og tryggði þeim 2-4 sigur.

Áfram vantar mörk frá Stokkseyringum
Sumarsins 2025 verður minnst sem sumars hinna glötuðu færa hjá Stokkseyringum. Þeir tóku á móti BF 108 á Eyrarfiskvellinum í kvöld og gestirnir komust yfir strax á 1. mínútu með óheppilegu sjálfsmarki. Stokkseyringar blésu þá til sóknar en eins og oft áður gekk ekkert að skora.

BF 108 tvöfaldaði forskotið á 19. mínútu og staðan var 0-2 í hálfleik. Þrátt fyrir ágætar sóknir var það ekki fyrr en á þriðju mínútu uppbótartímans að Gunnar Flosi Grétarsson kom loksins boltanum í netið fyrir heimamenn en það var of seint og lokatölur urðu 1-2.

Staðan í B-riðlinum er þannig eftir sjö umferðir að KFR er á toppnum með 16 stig en Stokkseyringar á botninum með 3 stig.

Fyrri greinÞórey Þula íþróttamaður ársins í Hrunamannahreppi
Næsta greinMinningarhátíð um Steingrím Hermannsson