KFR sótti stig á Eskifjörð

Knattspyrnufélag Rangæinga berst fyrir lífi sínu í botnsæti 2. deildar karla í knattspyrnu.

Í kvöld heimsóttu Rangæingar Fjarðabyggð í uppgjöri botnliðanna á Eskifirði. Úrslit leiksins voru 1-1 jafntefli en sigur var báðum liðum nauðsynlegur þar sem bilið upp í Hamar í 10. sætinu er að breikka.

Það blés ekki byrlega fyrir KFR í upphafi leiks því Fjarðabyggð komst yfir strax á 4. mínútu leiksins. Það reyndist eina færi fyrri hálfleiks þrátt fyrir ágætar sóknir beggja liða.

Þórhallur Lárusson jafnaði fyrir KFR á 70. mínútu leiksins og þar við sat. Rangæingar luku leiknum einum færri því Maciej Majewski, markvörður liðsins, fékk tvö gul spjöld á 78. mínútu fyrir að nöldra í dómaranum þegar brotið var á honum í teignum eftir hornspyrnu.

Markaskorarinn Þórhallur var tekinn af velli í kjölfarið og Przemyslaw Bielawski kom inná og setti upp hanskana. Hann hélt hreinu út leikinn og KFR fór heim með eitt stig í farteskinu.

Þegar átta umferðir eru eftir af deildinni eru Rangæingar á botninum með fimm stig en sex stiga munur er á þeim og Hamri í 10. sætinu. Rangæingar þurfa einnig að laga hjá sér markahlutfallið því liðið er með -21 mark, hefur skorað fæst mörk allra liðanna í deildinni og fengið á sig flest.