KFR sló Gnúpverja út úr bikarnum

Lið KFR og Stokkseyrar eru komin í 2. umferð Borgunarbikars karla í knattspyrnu. Stokkseyri vann Kríu í dag og KFR lagði Gnúpverja að velli.

Stokkseyri mætti Kríu á Selfossvelli en leikurinn var markalaus allt fram á 62. mínútu. Þá fengu Stokkseyringar vítaspyrnu og úr henni skoraði Þórhallur Aron Másson. Þetta reyndist eina mark leiksins. Þetta er í fyrsta skipti sem Stokkseyri kemst í 2. umferð bikarsins síðan liðið var endurvakið árið 2012.

KFR lenti í vandræðum með utandeildarlið Gnúpverja. Staðan var 0-0 í hálfleik en Gnúpverjar komust yfir á 70. mínútu þegar Hlynur Magnússon skoraði. Goran Jovanovski og Jóhann Gunnar Böðvarsson björguðu hins vegar Rangæingum með tveimur mörkum á síðustu fjórum mínútum leiksins.

Stokkseyri tekur á móti 1. deildarliði Leiknis í 2. umferðinni og KFR sækir Berserki heim.