KFR sigraði Hamar

KFR vann 3-1 sigur á Hamri í 3. deild karla í knattspyrnu í dag en á sama tíma tapaði Ægir 2-0 fyrir botnliði Reynis í 2. deildinni.

Rangæingar komust yfir á 30. mínútu þegar Helgi Ármannsson skoraði úr vítaspyrnu og staðan var 1-0 í hálfleik. Helgi bætti öðru marki við í upphafi síðari hálfleiks en Mateusz Lis minnkaði muninn fyrir Hamar í 2-1 á 75. mínútu. Hvergerðingum tókst ekki að jafna metin heldur var það Hjalti Kristinsson sem innsiglaði 3-1 sigur KFR með marki á lokamínútu leiksins.

KFR er nú komið upp í 4. sæti deildarinnar með 25 stig en Hamarsmenn eru í botnsætinu með sjö stig, þegar ein umferð er eftir af deildinni.

Í 2. deild urðu óvænt úrslit í botnbaráttunni og þegar tvær umferðir eftir eru Ægismenn búnir að sogast niður í fallbaráttu. Ægir tapaði fyrir botnliði Reynis, 2-0 í dag og hafa Ægismenn nú 22 stig í 8. sæti og eru þremur stigum frá fallsæti.

Ægir á eftir að leika gegn ÍR á heimavelli og Aftureldingu á útivelli.

Fyrri greinSelfoss í 6. sæti
Næsta greinSögusýning á bókasafninu