KFR og Stokkseyri töpuðu

KFR og Stokkseyri töpuðu leikjum sínum í B-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

KFR fékk nágranna sína í KFS frá Vestmannaeyjum í heimsókn í hörkuleik. Fyrri hálfleikur var markalaus en KFS komst yfir þegar tuttugu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. KFR tókst ekki að jafna en gestirnir bættu svo við öðru marki í uppbótartíma og sigruðu 0-2.

Stokkseyri sótti Augnablik heim í Kópavoginn þar sem heimamenn komust yfir á 6. mínútu. Það var eina mark fyrri hálfleiks, en Augnablik komst svo í 2-0 á sjöttu mínútu síðari hálfleiks. Eyþór Gunnarsson minnkaði muninn á 58. mínútu en Augnablik kláraði svo leikinn með þremur mörkum á tíu mínútna kafla undir lok leiks og lokatölur urðu 5-1.

KFR er í 5. sæti B-riðilsins með 7 stig, en Stokkseyri er með 4 stig í 6. sætinu.
Fyrri greinKristjana hreppti Grímuna
Næsta greinÆgir lá á útivelli