KFR og Stokkseyri töpuðu

KFR tapaði fyrir Grundarfirði í 3. deild karla í knattspyrnu í dag og Stokkseyri laut í gras gegn Kóngunum í 4. deildinni.

Birgir Alexandersson kom Stokkseyringum yfir strax á 5. mínútu gegn Kóngunum en heimamenn jöfnuðu tveimur mínútum síðar. Atli Rafn Viðarsson kom Stokkseyri aftur yfir á 23. mínútu en skömmu fyrir leikhlé skoruðu Kóngarnir tvö mörk á þremur mínútum og leiddu 3-2 í hálfleik.

Stokkseyringar komust ekki á blað í síðari hálfleik en gestirnir bættu fjórða markinu við strax á 3. mínútu síðari hálfleiks og Kóngarnir skoruðu svo tvö til viðbótar á síðustu tíu mínútum leiksins.

Á Hvolsvelli komust Grundfirðingar í 0-2 í fyrri hálfleik en Guðmundur Garðar Sigfússon, þjálfari KFR, minnkaði muninn í 1-2 með marki beint úr aukaspyrnu. Grundfirðingar bættu svo þriðja markinu við fyrir leikhlé og staðan var 1-3 í hálfleik.

Reynir Óskarsson minnkaði muninn fyrir KFR eftir klafs í vítateig Grundarfjarðar en nær komust Rangæingar ekki og gestirnir bættu fjórða markinu við áður en yfir lauk.

KFR er í 6. sæti 3. deildarinnar með 16 stig en Stokkseyri er í 8. sæti A-riðils 4. deildar með þrjú stig.

Fyrri greinSöguskiltin vekja athygli
Næsta greinKálfhólar skemmtilegasta gatan