KFR og ÍBV í samstarf

Knattspyrnufélag Rangæinga og ÍBV í Vestmannaeyjum skrifuðu um helgina undir samstarfssamning fyrir yngri flokka félaganna.

Samstarfið felst í því að félögin halda úti æfingum í Vestmanneyjum, á Hvolsvelli og Hellu en keppa svo sameiginlega undir merkjum ÍBV. Auk þess verða haldnar sameiginlegar æfingahelgar reglulega en samstarfið nær til allra yngri flokka félagsins.

Benedikt Benediktsson, formaður KFR, segir að erfitt hafi verið að halda úti einhverjum af yngri flokkum félagsins. Reyndar hafi 4. flokkur kvenna náð mjög góðum árangri á Íslandsmótinu í ár en liðið endaði í 5.-6. sæti, sem er líklega einn besti árangur félagsins frá stofnun þess 1997.

„Með samstarfinu sjáum við í KFR mikla möguleika á að knattspyrnuiðkun í Rangárþingi komi til með að fara upp á hærra stig. Sérstaklega með þeirri hefð og þekkingu sem ÍBV hefur á að skipa. Við vonum að samstarfið verði farsælt og báðum félögum til góða og síðast en ekki síst knattspyrnunni til góða,“ segir Benedikt.

Það voru þeir Jóhann Pétursson, formaður ÍBV-íþróttafélags og Óli Jón Ólason, meðstjórnandi í stjórn KFR, sem undirrituðu samninginn.

Við undirritunina sagði Jóhann að hann bindi miklar vonir við samstarf félaganna tveggja. Jóhann lagði áherslu á að um samstarf væri að ræða þar sem bæði félög kæmu jöfn að borðinu þótt keppt yrði undir merkjum ÍBV. Samstarfssamningurinn er ótímasettur en hægt verður að endurskoða hann í lok hvers sumars.

Fyrri greinKjartan Óla: Heildargreiðslur 998.950 kr á mánuði
Næsta greinHamarskonum spáð 4. sæti