KFR og Hamar í góðri stöðu

Aron Arnalds skoraði fyrir KFR. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Úrslitakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu hófst í dag en KFR og Hamar komust bæði í 8-liða úrslitin, þar sem leikið er heima og heiman.

KFR tók á móti nágrönnum sínum í KFS frá Vestmannaeyjum á Hvolsvelli í dag. Liðin fóru varlega í rokinu í fyrri hálfleik og staðan var 0-0 í hálfleik. Aron Daníel Arnalds kom KFR yfir á 47. mínútu en KFS jafnaði með marki úr vítaspyrnu fimm mínútum  síðar. Fjörið var ekki búið því Kristinn Ásgeir Þorbergsson skoraði sigurmark leiksins á 54. mínútu og lokatölur urðu 2-1.

Hamar er í frábærri stöðu eftir að hafa unnið 0-2 sigur á útivelli gegn KH í dag. Fyrri hálfleikur var markalaus en Unnar Magnússon kom Hamri yfir með ótrúlegu aukaspyrnumarki af 70 metra færi á 63. mínútu. Ingþór Björgvinsson bætti svo við öðru marki fyrir Hamar á 76. mínútu og lokatölur urðu 0-2. 

Seinni leikirnir í þessum viðureignum fara fram á miðvikudag á Grýluvelli í Hveragerði og á Týsvelli í Vestmannaeyjum. Samanlögð úrslit úr leikjunum tveimur ráða því hvort liðið kemst áfram og ef sunnlensku liðunum tekst að sigra þá munu þau mætast í undanúrslitunum.

Fyrri greinSelfoss gaf eftir á lokamínútunum
Næsta greinGuðrún skoraði glæsilegt sigurmark