KFR náði í stig – Uppsveitir mættu ekki til leiks

Rúnar (t.v.) og Bjarni skoruðu báðir í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

KFR gerði jafntefli í sínum leik í C-deild deildarbikars karla í knattspyrnu í dag en Hamar og Uppsveitir töpuðu sínum leikjum.

KFR heimsótti botnlið Léttis á ÍR-völlinn og þurfti að vinna sextán marka sigur til þess að tryggja sér sigur í riðli-3. Leikurinn var markalaus í fyrri hálfleik og Léttismenn voru fyrri til að skora í upphafi seinni hálfleiks. Bjarni Þorvaldsson jafnaði tveimur mínútum síðar.

Léttir komst aftur yfir á 70. mínútu en Rúnar Þorvaldsson jafnaði fyrir KFR átta mínútum fyrir leikslok og þar við sat. Lokatölur 2-2 og úrslitin þýða að Árborg fer í undanúrslitin úr þessum riðli. KFR er í 2. sæti riðilsins með 11 stig, tveimur stigum á eftir Árborg.

Leikur Hafna og Hamars var markalaus í fyrri hálfleik en Aðalsteinn Örn Ragnarsson braut ísinn í upphafi seinni hálfleiks og kom Hamri yfir. Hafnamenn reyndust sterkari í lokakaflanum og skoruðu þrjú mörk án þess að Hvergerðingar gætu svarað fyrir sig. Lokatölur 3-1.

Uppsveitir eru í sama riðli og Hamar og áttu að mæta Mídasi á Selfossvelli í dag. Uppsveitamenn mættu hins vegar ekki til leiks og dæmdist því leikurinn tapaður, 0-3.

Hamar er í 5. sæti í riðli 2 með 3 stig en Uppsveitir á botninum án stiga. Liðin mætast í lokaumferðinni á þriðjudaginn.

Fyrri greinÆgir tapaði í Akraneshöllinni
Næsta greinSelfoss lauk keppni með fullt hús stiga