KFR náði ekki að kría út sigur

Kristinn Ásgeir Þorbergsson skoraði bæði mörk KFR. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Rangæinga tapaði 4-2 þegar liðið heimsótti Kríu í 1. umferð 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Kría komst yfir á 8. mínútu leiksins og í uppbótartíma fyrri hálfleiks kom annað mark frá heimamönnum sem leiddu 2-0 í hálfleik.

Einhverjir hefðu haldið að róðurinn væri orðinn þungur fyrir KFR þarna en Kristinn Ásgeir Þorbergsson var ekki á sama máli. Hann skoraði tvö mörk með stuttu millibili á fyrstu tuttugu mínútum seinni hálfleiks og jafnaði 2-2.

Kríumenn reyndust hins vegar sterkari á lokakaflanum. Þeir komust aftur yfir þegar korter var eftir af leiknum og fjórða mark Kríu leit svo dagsins ljós í uppbótartímanum. Lokatölur 4-2.

Fyrri greinBólusett í FSu í sumar
Næsta greinÁhyggjur af hraðakstri í Hveragerði