KFR missti af úrslitakeppninni

Meistaraflokkur KFR. Ljósmynd/KFR

KFR tapaði 2-4 þegar Elliði kom í heimsókn í toppbaráttu D-riðils 4. deildar karla í knattspyrnu á Helluvelli í gær.

Liðin voru í 2. og 3. sæti riðilsins fyrir leikinn og með sigrinum tryggði Elliði sér sæti í úrslitakeppninni á kostnað KFR.

Rangæingar komust yfir á 34. mínútu með marki frá Guðbergi Baldurssyni en Elliði svaraði með tveimur mörkum á þremur mínútum undir lok fyrri hálfleiks.

Staðan var 1-2 í leikhléi en Þórhallur Lárusson jafnaði metin fyrir KFR á 64. mínútu. Seinni hálfleikurinn var jafn og spennandi en Elliðamönnum tókst að knýja fram sigur með því að skora tvívegis á síðustu tíu mínútum leiksins.

KFR hefur lokið keppni í deildinni í sumar og er með 19 stig í 3. sæti. Elliði er í 2. sætinu með 22 stig og mætir toppliði Ægis í lokaumferðinni.

Fyrri grein„Sá þetta fyrir mér á koddanum í gærkvöldi“
Næsta greinValur sigraði á Ragnarsmótinu