KFR missti af stigi í lokin

KFR missti af sínu fyrsta stigi í 2. deild karla í knattspyrnu á lokamínútum leiksins gegn HK á Kópavogsvelli í kvöld. HK sigraði 4-2.

HK komst yfir strax á 10. mínútu leiksins en Reynir Óskarsson jafnaði níu mínútum síðar og staðan var 1-1 eftir jafnan fyrri hálfleik.

KFR komst yfir þegar fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og þar var að verki Helgi Ármannsson. Forskot KFR lifði þó ekki lengur en fjórar mínútur en þá jafnaði HK, 2-2.

Allt leit út fyrir að þetta yrðu lokatölur leiksins þar sem leikurinn var tíðindalítill þegar leið á en á 83. og 84. mínútu skoruðu HK-ingar tvö mörk og gerðu út um leikinn.