KFR missteig sig – Árborg í kröppum dansi

Aron Örn Þrastarson og Alfredo Sanabria, leikmenn Árborgar. Aron Örn skoraði eitt marka þeirra bláu í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg lenti í basli með botnlið Ísbjarnarins og KFR tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttu 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Árborg og Ísbjörninn mættust í A-riðlinum á gervigrasinu við Kórinn í Kópavogi í kvöld. Magnús Helgi Sigurðsson kom Árborg yfir strax á tíundu mínútu en þá var (ís)björninn ekki unninn því heimamenn svöruðu fyrir sig undir lok fyrri hálfleiks og komust svo yfir, 2-1, um miðjan seinni hálfleikinn. Árborgarar gyrtu sig í brók á lokakaflanum, Aron Örn Þrastarson jafnaði metin á 80. mínútu og Aron Freyr Margeirsson skoraði svo sigurmark Árborgar fjórum mínútum fyrir leikslok.

KFR var í hörkubaráttu um 2. sætið í D-riðlinum og mátti ekki við því að misstíga sig á Ásvöllum í kvöld gegn Knattspyrnufélagi Ásvalla. Sú varð þó raunin því Hafnfirðingarnir sigruðu 4-0 þrátt fyrir að spila manni færri í sextíu mínútur. Staðan var 3-0 í hálfleik.

Árborg er í 3. sæti A-riðils með 24 stig þegar tvær umferðir eru eftir. KFR er áfram í 3. sæti D-riðilsins með 19 stig, eins og Elliði sem er í 2. sætinu en Elliði á leik til góða.

Fyrri greinAlvarlegt umferðarslys í Eldhrauni
Næsta greinLeitað við Þingvallavatn