KFR með fullt hús

Lið KFR heldur áfram að troða sokkum upp í spámenn og sparkspekinga en liðið sigraði Álftanes í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld og er eftir leikinn með fullt hús í toppsæti deildarinnar.

Liðin mættust á Hvolsvelli í kvöld í hörkuleik, þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í uppbótartíma.

Leikurinn var markalaus allt þar til á 93. mínútu að Hjörvar Sigurðsson tók af skarið og skoraði eina mark leiksins.

KFR, sem spáð var botnsætinu í deildinni, situr á toppnum eftir þrjá leiki með níu stig og hefur ekki enn fengið á sig mark.

Næsti leikur liðsins er á útivelli þann 6. júní gegn Magna á Grenivík. Magnamenn sitja nú í 2. sæti, með leik til góða.

Fyrri grein„Misstum stjórnina í seinni hálfleik“
Næsta greinLaus hestur í Hellisskógi