KFR vann góðan heimasigur á Úlfunum í 5. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Uppsveitir töpuðu á útivelli gegn Skallagrím.
KFR tyllti sér á toppinn á B-riðli með öruggum sigri gegn Úlfunum á Hvolsvelli. Unnar Jón Ásgeirsson skoraði tvisvar fyrir KFR í fyrri hálfleik og staðan var 2-0 í leikhléi.
Úlfarnir misstu mann af velli með rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks en þeir létu það ekki á sig fá og jöfnuðu 2-2 snemma í seinni hálfleik. Þá tóku Rangæingar aftur við sér og röðuðu inn mörkum. Jón Pétur Þorvaldsson, Helgi Valur Smárason og Bjarni Þorvaldsson komust allir á blað og tryggðu KFR 5-2 sigur.
Eftir sex umferðir er KFR með 13 stig á toppi riðilsins, eins og RB sem er í 2. sæti með lakara markahlufall. Spyrnir er þremur stigum á eftir toppliðunum og á leik til góða.
Öll mörk Skallanna eftir hornspyrnur
Uppsveitir voru í heimsókn hjá Skallagrími í Borgarnesi í A-riðlinum. Skallagrímur komst yfir með skallamarki eftir hornspyrnu á 17. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Strax í upphafi seinni hálfleiks skölluðu heimamenn aðra hornspyrnu í netið og á 67. mínútu tókst þeim að skora beint úr hornspyrnu og komast í 3-0. Uppsveitir áttu lokaorðið en varamaðurinn Ólafur Ben Gunnarsson skoraði snyrtilegt mark þremur mínútum fyrir leikslok og lokatölur urðu 3-1.
Uppsveitir eru áfram í 6. sæti A-riðilsins með 6 stig en Skallagrímur er í 2. sæti með 13 stig.