KFR klóraði í bakkann í lokin

KFR og Afturelding mættust á Varmárvelli í 2. deild karla í knattspyrnu í dag. Heimamenn höfðu 4-2 sigur.

Afturelding komst fyrir strax á 4. mínútu leiksins en það reyndist eina mark fyrri hálfleiks og staðan var 1-0 í hálfleik.

Mosfellingar gerðu svo út um leikinn með tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla í síðari hálfleik. Fyrra markið kom úr vítaspyrnu á 69. mínútu og tveimur mínútum síðar var staðan orðin 3-0.

Rangæingar gáfust þó ekki upp og Mariusz Baranowski minnkaði muninn í 3-1 á 79. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Afturelding jók muninn aftur á 82. mínútu en tveimur mínútum síðar náði Helgi Ármannsson að minnka muninn í 4-2 og reyndust það lokatölur leiksins.

Fyrri greinGestrisnir Hvergerðingar
Næsta greinSr. Óskar afhenti Hlyni Geir bikarinn