KFR og Hamar í úrslitakeppnina

Ævar Már Viktorsson og Arilíus Marteinsson háðu einvígi í leiknum í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Rangæinga og Íþróttafélagið Hamar tryggðu sér í dag sæti í úrslitakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu. KFR vann Stokkseyri í grannaslag og Hamar lagði Samherja að velli. 

Það var hart barist á Stokkseyrarvelli í dag, tæklingar og rauð spjöld á lofti. Þórhallur Lárusson kom KFR yfir á 20. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik. Baráttan hélt áfram í seinni hálfleik en rúmum tíu mínútum fyrir leikslok misstu Stokkseyringar Jón Jökul Þráinsson af velli eftir að hann fékk tvö gul spjöld með nokkurra sekúndna millibili, það síðara fyrir að hrinda Ævari Þór Viktorssyni. Stokkseyringar reyndu að sækja manni færri en fengu skyndisókn í bakið á 90. mínútu og úr henni skoraði Aron Arnalds annað mark KFR. Það reyndist síðasta spyrna leiksins. Lokatölur 0-2.

KFR er í toppsæti B-riðils með 27 stig og hafa lokið leik í riðlakeppninni. Stokkseyringar eru í 4. sæti með 14 stig en eiga ennþá tvo leiki eftir.

Lið Hamars tryggði sig sömuleiðis örugglega inn í úrslitakeppnina með 6-1 sigri á Samherjum á Grýluvelli í Hveragerði í dag. Samherjar komust yfir á 14. mínútu en Friðrik Örn Emilsson og Sam Malson skoruðu fyrir Hamar í kjölfarið og staðan var 2-1 í hálfleik. Hamarsmenn voru mun sprækari í seinni hálfleik og bættu við fjórum mörkum. Magnús Ingi Einarsson, Jón Bjarni Sigurðsson, Atli Þór Jónasson og Pétur Geir Ómarsson skoruðu allir og Hamar fagnaði 6-1 sigri.

Hamar er með 31 stig í toppsæti C-riðils og á tvo leiki eftir í riðlinum.

Fyrri greinÞrenn umhverfisverðlaun veitt í Rangárþingi eystra
Næsta greinStjörnuhrap hjá Selfyssingum