KFR tók á móti RB og Stokkseyri heimsótti SR í 5. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Rangæingar eru í toppmálum í B-riðlinum á meðan Stokkseyringar verma botnsætið.
KFR var í góðum gír framan af leiknum á Hvolsvelli í kvöld og skoraði fjögur mörk fyrir hálfleik. Helgi Valur Smárson skoraði úr vítaspyrnu á 22. mínútu og á eftir fylgdu tvö mörk frá Bjarna Þorvaldssyni og eitt frá Hákoni Kára Einarssyni. RB minnkaði muninn um miðjan seinni hálfleikinn en strax í næstu sókn skoraði Helgi Valur aftur fyrir KFR og tryggði þeim 5-1 sigur.
Í Þróttheimum í Laugardal mættust SR og Stokkseyri. SR komst í 2-0 á 30. mínútu en Stokkseyringar náðu að jafna á síðasta korterinu í fyrri hálfleik, með mörkum frá Martin Bjarna Guðmundssyni og Ingva Rafni Óskarssyni. Staðan var 2-2 í hálfleik en það var ekki fyrr en á lokakafla leiksins að mörkunum fjölgaði. SR komst í 3-2 á 77. mínútu og þeir juku forskotið í 4-2 fjórum mínútum fyrir leikslok. Martin Bjarni var svo aftur á ferðinni í uppbótartímanum og minnkaði muninn í 4-3 sem urðu lokatölur leiksins.
Sæti í úrslitakeppninni er í seilingarfjarlægð hjá KFR sem er í toppsæti B-riðilsins með 25 stig. Stokkseyringar eru hins vegar í bullandi fallbaráttu og þurfa að minnsta kosti að vinna tvo af síðustu þremur leikjum sínum, ætli þeir að halda sæti sínu í 5. deildinni.
