KFR lagði Vatnaliljurnar að velli, 5-2, þegar liðin mættust í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.
Guðmundur Garðar Sigfússon kom KFR yfir strax á 9. mínútu leiksins en á 36. mínútu jöfnuðu Vatnaliljurnar metin. Staðan var þó ekki lengi 1-1 því mínútu síðar kom Reynir Óskarsson KFR í 2-1 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Hjörvar Sigurðsson kom KFR í 4-1 með tveimur mörkum á tveimur mínútum í upphafi síðari hálfleiks og staðan breyttist ekki fyrr en á 85. mínútu að Vatnaliljurnar klóruðu í bakkann. Guðmundur Gunnar Guðmundsson kórónaði hins vegar 5-2 sigur KFR með síðasta marki leiksins á 86. mínútu. KFR er í 2. sæti síns riðils, tveimur stigum á eftir KB.
Stokkseyri og Augnablik mættust í C-deildinni á Selfossvelli í kvöld þar sem Augnablikar unnu öruggan 1-5 sigur. Arnar Þór Halldórsson skoraði eina mark Stokkseyringa á 81. mínútu þegar hann minnkaði muninn í 1-4 en Augnablik átti síðasta orðið í leiknum.
Í gær mættust Sindri og Hamar í B-deildinni, einnig á Selfossvelli, og þar fór Sindri með 1-0 sigur af hólmi.